14.10.2007 | 12:54
Höfuðborgin
Er stödd í Reykjavíkinni í augnablikinu og það fyrsta sem ég sá þegar ég kom út úr flugstöðinni var hin margumrædda friðarsúla hennar Yoko O-no. Ég get því miður ekki sagt að ég hafi heillast af þessu fyrirbæri og það minnti mig mest á leitargeisla úr WW II og bjóst ég jafnvel við loftárás á hverri stundu hahaha Ef við hefðum flogið í geislann hefði ég jafnvel óttast loftvarnarskothríð af jörðu hehehe. Nei, kannski ekki svo slæmt En þetta er skelfilega tilgangslaust fyrirbæri eigi að síður.
Fór í mat til Guðsteins í gærkvöldi og fékk gott nautakjöt, hann er góður kokkur og stendur fyllilega undir væntingum sem slíkur. Bara takk enn og aftur Guðsteinn og Bryndís.
Kringlan var sótt heim í gær, en ekki hvað? Dagurinn í dag er lokuð bók og ekkert plan til fyrir hann. Kemur bara í ljós. Fór út áðan í rigninguna og rölti á Hlemm. Sá engan frægan núna á þessum slóðum. Þeir eru kannski bara þarna á laugardagsmorgnum. Fór í bakarí og keypti mér óhollustu í sunnudagsmorgunmat, það er orðin hefð um helgar hér í bænum þegar ég kem hingað suður. Fer svo í fyrramálið norður, og niður en það er víst vani hjá flugvélum að fara niður á endanum Þakka bara fyrir að Dagur er ekki tekinn við sem borgarstjóri því að hann fer örugglega út á völl með hamar og meitil og byrjar að fjarlægja flugvöllinn Hann er víst með einhverja komplexa um að fá evrópskt borgarsamfélag þar sem allir labba í strætó í góða veðrinu. Sé það ekki fyrir mér hér í reykvískri veðráttu.
6.10.2007 | 13:37
Bækur
Ég er mikill lestrarhestur og hef alltaf verið. Ég held tryggð við sumar barnabækur sem ég las sem krakki. Núna er ég að lesa Enid Blyton og það er vissara að lesa hana ekki á fastandi maga Það er öðurvísi að lesa hana sem fullorðin en sem barn, ef hinn PR færi að ritskoða hana yrði allt vitlaust. Í Dularfulla bókaflokknum koma sígarettur t.d aðeins við sögu, það truflar mig ekkert, en á tímum þar sem verið er að þurka út allt sem viðkemur reykingum í Tomma og Jenna færi það örugglega fyrir brjóstið á mörgum. Þetta var einfalldlega hluti af þessum samtíma, og er þessi árátta að breita því efni í sér pistil.
Einu sinni var ég mikill aðdáandi Nancy Drew en í mínu tilfelli þoldi hún ekki þessi miklu umskipti upp í fullorðinsárin og núna þoli ég hana ekki hahaha. Ég er alltaf hrifin af bókaflokknum um Dóru eftir Ragnheiði Jónsdóttir, það er verulega heillandi að lesa raunhæfa samtímalýsingu á þessum miklu umbrotatímum sem hernámsárin voru. Annar bókaflokkur um sama tíma er eftir Guðrúnu Helgadóttir og er líka í miklu uppáhaldi. Það eru Sitji Guðs englar : Saman í hring og Sænginni yfir minni. Þetta eru svo skemmtilega skrifaðir bókaflokkar og lifandi.
Einn flokkur af bókum hefur aldrei heillað mig nema síður sé, og það eru svokallaðar unglingabækur eftir þessa íslensku höfunda. Mér hefur alltaf virst að það séu börn sem lesa þær en unglingarnir sem þessar bækur eru skrifaðar fyrir færi sig í eitthvað bitastæðara. Þannig var það þegar ég var unglingur allavega. Ég var farin að lesa Alistair Maclean þegar ég var 14 ára og Sydney Sheldon. Já og Rauðu seríuna, það er til þvílíkur haugur af þessu drasli og flest svo heiladrepandi að ég gafst upp einn daginn og hætti að taka fullan poka af þessu á bókasafninu hahahaha. Ég á nokkrar uppáhaldsbækur sem ég les reglulega en nenni almennt ekki að taka eitthvað nýtt.
Listinn er langur af þeim höfundum sem ég held upp á og hef ekki nefnt hér, en nokkrir þeirra eru Jack Higgins í spennusögum og barnabókahöfundar sem ég verð að nefna eru Tove Janson og Astrid Lindgren. Bróðir minn Ljónshjarta er náttúrulega meistaraverk. Þetta er smá yfirlit um minn bókasmekk sem er ótrúlega víður. Það er bara gaman að hafa fjölbreitni í hlutunum.
3.10.2007 | 18:08
Sagan öll
Ég hvet ykkur endilega til að verða ykkur út um nýjasta tölublað Sagan öll. Ég keypti það nú reyndar út af grein um Tinna en rakst á ýmislegt athyglisvert. Þar eru birtar myndir af Múhameð. Það virðist s.s ekki vera eins bannað og þeir sem hvöttu til uppreisnar gegn dönum héldu fram. Þarna eru sýnd indæl málverk af Múhameð og að talið er Gabríel erkiengli að fylgjast með púkum refsa konum í helvíti, því að flestir í því helvíti eru jú konur. Svo er athyglisverð grein um musterisriddarana og svartadauða. Þetta er ágætt blað og gaman að blaða í þessu.
1.10.2007 | 23:07
Antikristur: Hver er hann?
Eftir að hafa lesið um þær kenningar að vatikanið sé antikristur er þetta mál mér hugleikið þessa dagana og Dottinn leggur mér þá byrði á herðar að skrifa um það sem ég veit um hann.
Aðventisarnir telja sig hafa fundið antikrist og lesa Opinberunarbókina samkvæmt því. Miðað við hversu langt kaþólikkar eru margir frá kristni er kannski ekki nema von að þeir dragi þá ályktun, allavega er þetta stofnun sem afvegleiðir marga og heldur villu að fólki. En antikristur er ekki kristinn, ekki einu sinni að nafninu til. Það er mjög skýrt í Opinberunarbókinni.
Antikristur er ekki eitthvað eitt heldur meira andkristnir straumar og stefnur innan samfélagsins. Af slíku er nógu af að taka í nútímanum, til að mynda sú tækni sem gerir mér kleift að skrifa þessa færslu, netið s.s. Sá maður sem kynnti Guð fyrir hluta þessarar fjölskyldu hafði gáfu til að lesa spádóma biblíunnar og sérstaklega Opinberunarbókarinnar. Hann talaði um tölvurnar, og var það áður en þetta stökk í þróun þessarar tækni kom. Nú er hann illa haldinn af alzeimer og mun ekki fá fleiri lausnir, en hann hefði hugsað svipað og ég geri núna. Það er einmitt búið að finna upp það sem ég hef efst á lista grunaðra hvað merki dýrsins gæti verið, og taka í notkun á gæludýrum.
Örflögur verða líklegast græddar undir húð. Það mun enginn geta keypt og selt nema að hafa merkið. Það fær mann til að spyrja sig hvaða aðilar gætu haft næg völd til að koma þessu á. Og þeir einu sem mér dettur í hug eru stórfyrirtækin sem hafa mun meiri völd en augljóst er. Það er erfitt að sjá Vatikanið fyrir sér í þessu samhengi. Opinberunarbókin talar líka mikið um konunga jarðar, þá sem völdin hafa, sem eru jú stórfyrirtækin sem hafa öll þessi ítök í pólitík. Stórfyirirtækin sýna öll einkenni siðblindu, samt eru þau ekki persónur en eru samt svo stór og svo skelfilega gráðug og gína yfir öllu. Alveg eins og dýrinu er lýst.
Nú veit Guð einn fyrir víst hvað dýrið er. En ætli maður að fara að rýna í Opinberunarbókina verður að skoða það í samhengi. Það gengur betur upp að ætla að antikristur sé ekki einn aðili heldur eitthvað sem erfiðara er að festa hönd á og hefur ítök alstaðar. Að setja Vatikanið eitt í það hlutverk skýrir ekki hina spádómana, og það er erfitt að setja þá alla í samhengi með því móti. En stórfyrirtæki ganga betur upp í því samhengi vegna valda þeirra og hversu víða þau ná og til hvað margra. Og vegna áhrifa þeirra á þá sem völdin eiga að hafa, pólitíkusana. Þau eru með ítök í hergagnaframleiðslu. Listinn er langur.
Hef ég rétt fyrir mér, ég veit það ekki en Guð veit það. En það er á hreinu að þetta passar mun betur við allt sem antikristur á aðhafast.
27.9.2007 | 17:52
Jesús og Da Vinci Code
Ég hef mikð hugleitt Da Vinci Code og þessum lúmsku kenningum um að Jesús hafi verið giftur og átt börn. Í þessum pistli ætla ég að fara smá í mínar hugleiðingar um þetta.
Margir spyrja afhverju hann ætti ekki að hafa verið giftur þar sem hann var jú maður, einskonar hippi síns tíma. Þessi hippastimpill passar reyndar ekki við boðskap Jesú, þeir sem halda því fram sjá aðeins það sem þeir vilja sjá úr boðskap hans, en kjósa að líta fram hjá því hvað hann var hvass í orðum. Hippar aðhylltust líka frjálsar ástir, en Jesús er alveg skýr á hvað honum finnst um slíkt. Svo er það þetta meinta hjónaband hans og Maríu Magdalenu. Hún María var klárlega góð sterk kona, trú hennar sterk, og ást hennar til Jesú mikil eins og hjá öllum sem kynnast honum. En það er til annarskonar ást en ást milli manns og konu, sú ást er of oft vanmetin og gert lítið úr í samfélagi sem aðhyllist frjálsar ástir eins og hippamenningin. Slíka ást hefur Jesú til allra hvorki meira né minna. Það var sú ást sem hjálpaði honum að deyja á krossinum fyrir okkur öll.
Og það er kjarninn í boðskap Krists, og hann vissi alla ævi að þá leið átti hann að fara. Það var ekkert pláss fyrir maka og börn í hans lífi þar sem það var uppfullt af Guði, og uppfullt af kærleik til heimsins. Hans hlutverk var miklu æðra þessu venjulega jarðlífi, þar sem hann var ekki bara maður heldur Drottinn. Að halda því fram að hann hafi bara verið maður sem gerði uppreisn gegn ríkjandi samfélagi og allt eins giftur, gerir hreint út sagt lítið úr þeirri fórn sem okkur öllum var færð. Guð sendi son sinn eingetinn til að deyja á krossi og rísa upp frá dauðum svo allir sem á hann trúi öðlist eilíft líf en glatist ekki. Það er hámark kærleikans.
24.9.2007 | 22:39
Merkileg bók
Ég er að lesa bók sem ég vil endilega deila með ykkur, sérstaklega þeim trúuðu. Hún heitir Fylgsnið og er skrifuð af Boom og Sherrill. Hún fjallar um Corrie ten Boom sem var hollensk og bjó í smáborg sem heitir Haarlem og er rétt hjá Amsterdam. Það sem er svona einstakt við hana og fjölskyldu hennar er trú þeirra, þau voru öll lifandi trúuð og fengu sinn skammt af visku og krafti Drottins. Corrie og systir hennar tilheyrðu neðanjarðarhreyfingu í seinna stríði og unnu ötullega að björgun gyðinga undan Gestapo. Það var hættulegt starf í landi sem nasistar réðu ríkjum. En það unnu þær undir dyggri vernd og stuðnings Drottins. Faðir þeirra var sterkur trúmaður og sá fyrir að hollendingar myndu ekki halda út gegn þjóðverjum og landið yrði hernumið.
Trúarreynslu þeirra geta margir lifandi trúaðir samsamað sig og ég þekki sumt af þeim lærdómi sem hún Corrie þurfti að ganga í gegnum. Og sýnir það sem ég hef lengi vitað að það er ævilangur lærdómur á vegi Guðs. Corrie var hátt á fimmtugsaldri þegar þegar stríðið skall á og hún var enn að læra. Í þessari bók er líka aðeins farið inn á dauðamenningu þá sem viðgekkst í Þýskalandi nasismans. Bróðir hennar sem var prestur vissi mikið um það sem gékk á í Þýskalandi á þessum hryllingstímum. Sem var sú óhuggulega stefna að losna við gamalmenni og þá veiku. ( Um það má lesa í bókinni Falið vald. ) Hann tók á móti flóttamönnum frá Þýskalandi og hýsti þá. Öll þessi fjölskylda var full af kærleik, óeigingirni og ósérhlífni.
Þessi bók kennir okkur hvað fullkomið traust á Drottni skilar okkur í líf okkar. Ég finn að Guð snertir við mér við lestur þessarar bókar og sýnir mér hvað er hægt undir hans leiðsögn. Eiginlega skortir mig orð til að lýsa þessu. Ég mæli hiklaust með henni við ykkur hafið þið ekki þegar lesið hana. Þessi bók á fullt erindi við lifandi trúaða.
22.9.2007 | 12:14
Náttúran
Nú er einn af þessum fögru haustdögum þar sem náttúran skartar sínum skæru litum sem ljóma í blessarði sólinni. Veturinn hefur minnt á sig og fjöllin eru hvít til hálfs. Sumir hata veturinn en ég er svo heppin að kunna að meta allar árstíðir, þær hafa allar sinn sjarma. Það er yndislegt að vera úti í lognsnjókomu, helst sem þéttastri, það er svo mikill friður í henni. Hlý lognrigning er ekki síðri og það er eitthvað svo hreinsandi og hressandi við hana. Og lygn vor og sumarkvöld eru engu lík.
Náttúran hefur svo mikið af fegurð Guðs og mikilfengleika. Þetta kannast ábyggilega fleiri trúaðir við. Rennandi vatn er gott dæmi um þetta, litlar sprænur sem kliða glaðlega og fossar sem steypast mikilfenglegir, jafnvel þeir minnstu. Þetta sýnir allt bæði fegurð og kraft Drottins. Og þó að ekki sé minnst á allar náttúruhamfarirnar sem eru svo skelfilega mikilfenglegar eins og Drottinn getur verið einnig. Guð setti hluta af sér í allt sköpunarverk sitt og allar hliðar sem eru augljósar en samt svo torskyldar og enginn maður getur nokkurntíman skilið til fulls. Það gerir mann auðmjúkan að vera hluti af þessu öllu og vera hluti af Guði.
21.9.2007 | 13:03