17.7.2010 | 19:15
Biblían og þrælahald.
Það er víst kominn tími á nýja færslu. Ég er alltaf að hugsa svo margt merkilegt en á ekki eins gott alltaf með að koma því í orð. Ég hef t.d. verið að hugleiða ein rök hinna trúlausu sem er þrælahald í biblíunni. Það er auðvitað voða þægilegt að varpa þessu fram, þar sem talað er um framkomu við þræla á nokkrum stöðum. Þó að biblían tali til okkar í nútímanum að flestu leyti, fyrir þá sem ljá eyra því sem hún reynir að segja okkur, þá talar hún líka beint til þeirra sem voru uppi á þeim tíma sem hún var skrifuð.
Við í nútímanum höldum ekki þræla á heimili okkar þó að það tíðkist því miður í iðnaði nútímans, en því er ekki að neita að þannig var það á biblíutímanum. Og biblían segir, farðu vel með þá og uppfræddu þá í trú. Það er ekki boðuð gagnger samfélagsbreyting í biblíunni, og engin sérstök herör slegin gegn kvennakúgun og þrælahaldi sem var einn þáttur þess tíma. En biblían boðar hverjum einstakling að fara vel með það fólk sem hann hefur á heimili eða er ábyrgur fyrir eins og þrælum og vinnufólki. Hvergi nokkurs staðar er hvatt til að taka þræl eða fara illa með konur.
Og það er einnig sagt að sé einstaklingurinn þræll sjálfur skuli hann vera húsbónda sínum trúr og treysta Drottni fyrir þeim aðstæðum. Það er engin furða að þessi boðskapur vefjist fyrir nútímafólki með sterka réttlætiskennd. Biblían er orðin gömul í árum en maðurinn hefur ekkert breyst og þess vegna talar hún enn til okkar. Sömu týpur og biblían skammaði eru til og enn eru til auðmenn sem safna auði á kostnað hinna varnarlausu. Það er varla Guði að kenna þó að einstaklingarnir láti undan fýsnum sínum og brestum. Hver og einn þarf að taka ábyrgð á sínum verkum og það gengur jafnt yfir alla.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.