13.3.2008 | 19:52
Kraftaverk í Iowa
Þetta er frásögn úr þætti um flugslys sem heitir Svarti kassinn og ég á á spólu. Þetta finnst mér vera áhrifamikill atburður og ætla að segja lauslega frá þessu furðulega flugslysi. Þetta er ekki 100% nákvæmt en allar staðreyndir réttar.
Þann 19 júlí 1989 fór á loft frá Denver DC-10 þota frá United Airlines á leið til Chicago og Filadelfia. Um borð voru 285 farþegar. Á fyrsta farrými var yfirflugstjórinn Denny Fitch. Flugstjóri í ferðinni var Al Haynes og yfirflugfreyja var Jan Brown. 40 mínútum eftir flugtak í 37.000 feta hæð varð óvænt sprenging í stélhreyfli (DC-10 er þriggja hreyfla). Flugmenn æfa hreyfilbilanir einna best af öllu í flughermi og því brugðust þeir skjótt við með að drepa á hreyflinum. Denny Fitch fór fram í flugstjórnarklefann til að kanna stöðuna og það kom fljótlega í ljós að ástandið var mun verra en virtist í byrjun. Það var hvorki hæðar né hliðarstýring, og vökvakerfið tómt. Fitch fór fram og leit á vængina og sá að hliðarstýrin vísuðu í sömu átt en eiga að snúa í gagnstæða. Vélin var því stjórnlaus. Eina leiðin til að stjórna vélinni var að draga úr afli á öðrum hreyflinum og auka á hinn, þannig beygði vélin. Denny Fitch bauðst til að taka að sér stjórn á eldsneytisgjöfunum og stjórnaði þar með vélinni.
Hann náði stjórn á stefnunni og var stefnt á Siaux City Iowa. Flugið var ein barátta við að halda vélinni á lofti. Um tíma var útlit fyrir að hægt væri að lenda á hjólum og koma mannskapnum út, en þegar nær dró flugvellinum kom í ljós að hún kom of hratt inn og örlítið til hliðar við brautina. Vélin skall niður og hjólin brotnuðu, hún rann stjórnlaust og upp kom eldur, að lokum kollvarpaðist hún og fór í nokkra hluta. Þegar fyrstu björgunarmennirnir komu að var fólk að rísa upp á akrinum, þeir áttuðu sig á að þetta voru farþegarnir. Flugfreyjan Jan Brown hafði haldið að þetta væri að verða búið, það logaði í henni, en svo reis hún á fætur og fór að koma fólki út uns það var ógerlegt. Hún brann illa á fótum þegar sokkabuxurnar brenndust inn. Hún hugsaði með sér að hún gæti allt eins þakkað farþegum fyrir ferðina. Einn farþeginn fann töskuna sína og tók hana upp.
184 af 285 lifðu slysið af. Flugstjórnarklefinn var lengst frá brakinu og flugmennirnir 4 innilokaðir. Denny Fitch var í lífshættu um nóttina. Þegar hann hitti konuna sína um morguninn spurði hann fyrst hvort hann hefði náð flugbrautinni, svo spurði hann hvort allir hefðu komist af en fékk að vita að svo var ekki. Um tíma vildi hann að hann hefði dáið ef hinir hefðu lifað, en málið er nú samt að hann bjargði því sem bjargað varð. Það var hans stjórn á vélinni sem kom henni á flugvöllinn og honum að þakka að svo margir gengu nær ómeiddir frá slysinu.
Orsökin reyndist vera galli í hvirfilblaðdisknum í stélhreyflinum. Hann splundraðist og klippti á hæðarstýrið og vökvaleiðslurnar. Hann fannst ekki fyrr en þremur mánuðum seinna á akri, við nánari skoðun fannst þessi galli sem var á stærð við sandkorn og fannst ekki við framleiðsluna né við skoðanir. Niðurstaðan var mannleg mistök.
Ég skrifa um þetta af því að ég er nær viss um að þessi útkoma er Guði að þakka. Al Haynes sagði í þættinum að við þessar aðstæður átti vélin ekki að haldast á lofti, en hún gerði það samt. Og að Denny Fitch var um borð var líka Guði að þakka því að hann flaug vélinni. Þegar reynt var að fljúga með þessum hætti í flughermi seinna tókst aldrei að lenda. Það er einhver hógværð og ljúfmennska við þennan mann, einmitt týpa sem Guð notar gjarnan. Þó að það hafi orðið mannskaði þá hefðu allir farist hefði vélin hrapað til jarðar úr 30.000 feta hæð. Af hverju Guð grípur stundum inn í og stundum ekki er ráðgáta sem maðurinn mun sennilega aldrei fá svar við. En einhverjar ástæður hefur hann. Staðreyndin er sú að Guð hugsar um alla menn og ekki bara sitt fólk, hann gerir kraftaverk um allan heim daglega, sum stór og önnur lítil. Guð er svo kærleiksríkur að hann elskar allt mannkyn jafnt.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:57 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Flower, ég man eftir þessu, og það er rétt hjá þér þetta var kraftaverk og ekkert annað.
Knús
Linda, 18.3.2008 kl. 13:46
Virkilega gaman að heyra svona sögur. Ég trúi einmitt að Guð geti gripið inn í aðstæður sem þessar.
Bryndís Böðvarsdóttir, 18.3.2008 kl. 20:17
Takk Ólafur, var að skoða bloggið þitt og það eru hlutir í því sem eru ekki alveg að gera sig fyrir mig. Þannig að ég ætla ekki að þiggja bloggvináttu sorrý En þú ert velkominn hingað hvenær sem þú villt.
Flower, 19.3.2008 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.