Hippar og frelsið

Ég hef verið að spá dálítið í því eftir að ég horfði á þátt um hippana síðastliðið miðvikudagskvöld. Ég hef alltaf haft dálítinn áhuga á þessu tímabili, og núna hin síðari ár er áhuginn í þá átt hvernig þetta tímabil breytti hugsun heillar kynslóðar. Í þessum fyrsta þætti af fjórum var umfjöllunarefnið frjálsar ástir og hvernig viðhorf fólks til líkamans breyttist.

Frjálsu ástirnar voru rómaðar alveg óskaplega, en það glitti í eitt sem ég greip. Þessi kona sem talað var við sagði að hún hefði sofið hjá mönnum sem hún hefði samt ekki áhuga á að vera með, af því að það var ókurteisi að neita svo góðu boði. Þetta segir meira en mörg orð kannski. Er það frelsi ef ekki má segja nei? Það finnst mér ekki, frelsið ætti þá að liggja í báðar áttir. 

Það má finna mörg dæmi í þjóðfélagi okkar þar sem þrýstingur er um að verða eitthvað en ekki má snúa til baka frá því án þess að vera litinn hornauga. Svo er náttúrulega aldrei frelsi án ábyrgðar. Hversu margir skyldu nú hafa farið illa andlega út úr hippaárunum, af eiturlyfjum, kukli, og óábyrgu kynlífi? Það var ekki rætt við þá í þessum þætti, en ég vona að því verði líka gerð skil í þessari þáttaröð svo að allrar sanngirni verði gætt. Og það er aldrei að vita nema ég skrifi fleiri færslur um þetta efni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband