Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
5.8.2008 | 12:04
Hippar og frelsið
Ég hef verið að spá dálítið í því eftir að ég horfði á þátt um hippana síðastliðið miðvikudagskvöld. Ég hef alltaf haft dálítinn áhuga á þessu tímabili, og núna hin síðari ár er áhuginn í þá átt hvernig þetta tímabil breytti hugsun heillar kynslóðar. Í þessum fyrsta þætti af fjórum var umfjöllunarefnið frjálsar ástir og hvernig viðhorf fólks til líkamans breyttist.
Frjálsu ástirnar voru rómaðar alveg óskaplega, en það glitti í eitt sem ég greip. Þessi kona sem talað var við sagði að hún hefði sofið hjá mönnum sem hún hefði samt ekki áhuga á að vera með, af því að það var ókurteisi að neita svo góðu boði. Þetta segir meira en mörg orð kannski. Er það frelsi ef ekki má segja nei? Það finnst mér ekki, frelsið ætti þá að liggja í báðar áttir.
Það má finna mörg dæmi í þjóðfélagi okkar þar sem þrýstingur er um að verða eitthvað en ekki má snúa til baka frá því án þess að vera litinn hornauga. Svo er náttúrulega aldrei frelsi án ábyrgðar. Hversu margir skyldu nú hafa farið illa andlega út úr hippaárunum, af eiturlyfjum, kukli, og óábyrgu kynlífi? Það var ekki rætt við þá í þessum þætti, en ég vona að því verði líka gerð skil í þessari þáttaröð svo að allrar sanngirni verði gætt. Og það er aldrei að vita nema ég skrifi fleiri færslur um þetta efni.
2.8.2008 | 18:04
Gamla góða
29.7.2008 | 13:03
Appelsína
Jess, ég er að hugsa um að skipta um útlit. Þetta er nú að sumu leiti flott verð ég að segja, allavega glaðlegt og með sólargeisla sem skín í gegnum appelsínuna.
Ég hef verið löt að blogga, en kem með eitthvað gáfulegt þegar ég fæ gömlu tölvuna aftur. Þá dúkka kannski upp einhverjar gáfulegar hugleiðingar. Ég nenni ekki að skrifa langa texta í svona leiðinlegri tölvu.
25.6.2008 | 16:53
Guð er enginn óskasteinn
Ég ætla aðeins að tala um bænina. Það upplýsist hér með að með reglulegu millibili tek ég út sálarkrísur út af ólíklegustu málum og oft af litlu tilefni. Þegar slíkt gerist þá leita ég að sjálfsögðu til Drottins, en stundum með blendnum huga. Í dag tók ég eitt svona kast eins og ég er farin að kalla þetta með sjálfum mér. Ég var smá lausmál og það gæti komið sér illa fyrir aðra. Það er reyndar ekkert óeðlilegt að finna til samviskubits í þannig tilfelli. En ég leitaði að sjálfsögðu til Drottins með þetta. Því hann megnar að leiðrétta mistök mín þegar ég er ekki fær um það. Svo fór ég að hugsa um þetta á allt annan hátt en ég er vön.
Þau fyrirheit gefur Jesú okkur að við megum leita fram fyrir hann með hvað sem er. Eins og maður gerir ósjálfrátt með jafnvel smámál sem eru algjörlega veraldleg. Bara ef maður játar að vilji Guðs ræður. Svo lengi sem maður virðir það þá þarf ekkert að vera feiminn við að biðja um nánast hvað sem er, nema ef það er þess hégómlegra. Það líður mér seint úr minni úr myndinni Jesus Camp þegar ein telpan er að skipa keilukúlu að hitta í nafni heilags anda. Svo langt gekk ég ekki á hennar aldri þó að ég væri að biðja um eitt og annað.
Ég er því búin að skipta um skoðun á þessu að biðja til Guðs um veraldleg mál, þegar ég var áður með blendar tilfinningar varðandi það. Það er ekki vandamálið að biðja heldur ef maður ætlast til að það sé uppfyllt. Guð er enginn óskasteinn sem uppfyllir allar óskir. Hann er lifandi og persónulegur Drottinn okkar og frelsari sem ber að virða sem slíkan. Að vilja leysa úr jafnvel smámálum fyrir okkur þegar hann þyfti þess alls ekki sýnir kærleika hans til okkar. Það er ekki annað hægt en að verða bljúg og auðmjúk, því að það er ólýsanlegt að vera svo sérstakur í hans huga.
12.6.2008 | 13:08
Svarthöfði í prestgöngu
Ég er búin að vera að hugleiða þetta dálítið. Mér finnst þetta fyndið, gríðarlega meira að segja. Og þetta móðgar mig ekki neitt, ekki vitund. Það má spyrja eins og hann Haukur gerir á sínu bloggi hvers vegna þeir eru að þessu? En ég nenni ekkert að vera að velta mér alvarlega upp þessu samt. Og það gleður minn Star Wars áhuga að sjá minni uppáhalds persónu bregða þarna fyrir í svo virðulegum félagsskap
Ég er samt búin að gefa hluta af þeim áhuga upp. Ég þurfti nefnilega að éta ofan í mig að það er dulspekiáróður í þessu og hætta að hafa þetta sem hjáguð. Og núna horfi ég á þetta einu sinni á ári. Það sem mér finnst vera dálítið varhugavert við þetta er hvað margir sökkva sér ofan í þetta, það sá ég á blogginu á starwars.com. Ég sá sjálfan mig og margar hugmyndir sem ég var að velta fyrir mér. Þegar ég var búin að horfast í augu við að svona dýrkun á bíómyndum er ekki heilbrigð þá var auðveldara að fjarlægjast þetta ofurlítið og líta bara á þetta sem bíómyndir. Og kannski vill Guð að ég hætti þessu alfarið einn daginn.
Ég vil ekki setja neinar hömlur á að gera grín að kristinni trú, það lætur kristna líta út eins og forræðishyggjusinna, líta þeir nógu illa út samt. Ég hlæ ekki að að slíku gríni samt, ég vil ekki sýna Guði mínum óvirðingu með því og það er afstaða sem ég tek fyrir sjálfan mig. Þeir sem gera grín að merkustu og heilögustu atburðum kristni verða að eiga um það við Guð. Það er að mínu viti ekki mitt að fordæma þá.
25.5.2008 | 10:30
Úti á palli
Jæja núna sit ég hérna úti á palli og kisinn minn liggur undir stól, hann vill alltaf vera þar sem fjörið er. Það er svo sem ekki mikill hiti þannig, það er gola og hún er það svöl að maður verður að vera í peysu svo að það sé líft úti. En sólin skín og ætla ég ekkert að kvarta Fuglarnir eru allsstaðar að syngja og það kveður við úr öllum áttum. Einhverra hluta vegna hef ég aldrei reynt að fara með tölvuna út á pall og það sést ekkert of vel á hana. Ég hef ekkert sérstakt gáfulegt fram að færa en það er gaman svona einu sinni að blogga undir berum himni. Guð gefi ykkur góðan dag.
11.5.2008 | 14:07
Fylgsnið
Til að byrja með þá óska ég ykkur gleðilegrar hátíðar, þessi hátíð er svo sannarlega kristin.
Ég er búin með Fylgsnið og er full af hugleiðingum um hana. Ég ætla að spoilera meira en síðast. Þessi bók er eins og Drekatár um mjög truflaðan ungan mann en hann er mun raunverulegri en sá í Drekatári. Hann er ekki með fjarstæðukenndan yfirnáttúrulegan hæfileika heldur rammandsetinn sem er sannarlega raunverulegt fyrirbæri. Svo er það hann Hatch sem deyr en er lífgaður við, tekur með sér erkiengil og kemst í samband við við þennan andsetna mann. Um þann þátt er ég ekki viss um að eigi sér stoð í raunveruleikanum en veit að Drottinn opnar og lokar þeim dyrum sem hann ætlar sér og vill.
Þetta er mjög kaþólsk nálgun á kristni, og mjög einblínt á ytri trúartákn eins og róðukross sem er kaþólskara en allt sem kaþólskt er. Og þetta ber mörg einkenni kaþólskra helgisagna. En það er samt nóg vit í þessu til að ég finn mig í þessu. Það eru þessir tveir aðilar Drottinn og Satan, og þau áhrif sem þeir hafa á fólk sem þessi bók fjallar fyrst og fremst um. Öll reynsla fólks af "yfirnáttúrulegum" toga verður vegna þessara tveggja.
Koontz er líka naskur á að koma til skila því háði sem Satan viðhefur í garð Drottins. Það kemur í mörgum myndum og mörgum lygum sem Satan er duglegur að dreifa og hefur til þess marga vettfangi. Satan og hans brögð eru efni í sér blogg og sennilega mun ég taka það fyrir fyrr eða síðar. Lokabardaginn er líka dálítið á mörkunum finnst mér og er dálítið kaþólskur líka. Erkiengill að berja djöflaprins í hausinn með róðukrossi veit ég ekki hvort á einhverja stoð í raunveruleikanum. Mannlegi hýsillinn drapst vissulega við þá meðferð. Hvort krossinn sem slíkur er einhver ógn við Satan efast ég um. Það er einlæg bæn til Guðs og valdið sem Guð veitir manni sem skelfir hann mest. Ytri tákn hafa þar ekkert að segja.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.5.2008 | 21:22
Drekatár
Er núna búin með Drekatár og ákvað að skrifa um hana og svo næst um Fylgsnið. Dean Koontz er merkilegur höfundur að mörgu leiti og hefur mjög skarpa sýn á eðli mannkyns og er ekkert að fegra það. Hann hefur greinilega mikinn áhuga á trúmálum og andlegum efnum þó að ég viti ekki alveg hvar ég á að staðsetja hann. En hann er nógu vel að sér til að gera góðar bækur um þetta, þó að þær standist kannski ekki ströngustu kröfur. Pælingar hans eru góðar og mjög líkar mínum og þess vegna líkar mér hann svona vel.
Drekatár fjallar um mjög fjarstæðukennda yfirnáttúrulega hæfileika hjá mjög trufluðum ungum manni. Hann telur sig eiga að taka við af Guði sem stóð sig ekki nógu vel við sköpunina. Spegilmynd af rökum hans um Guð heyrast víða og ganga út á að Guð sé misheppnaður. En hann nálgast þetta samt öðruvísi þar sem hann virðist trúa að það sé eitthvað þarna. Það kemur ekki fram hvort hann reiknar með uppgjöri við þann sem á undan kom, þó að hann sé uppfullur af áhætlunum hvernig hann ætlar að slátra og meiða fólk á sem blóðugastan hátt. Þessir hæfileikar hans eiga sér enga fyrirmynd heldur er bara skálskapur, hann getur kveikt í fólki og ýmislegt annað, en ég vil ekki telja það allt upp ef einhverjir vildu lesa bókina.
Svo eru það allar þessar litlu pælingar út alla bókina sem eru áhugaverðar. Eins og um Freud og hvernig hann kom þeirri hugsun í samfélagið að geðheilsan væri svo brothætt. Og hryllinginn sem kemst í fréttir daglega. Það eru vægast sagt óhugguleg mál sem gerðust sem hann er að telja upp við og við. Ég ætlaði svo sem aldrei að fara nákvæmlega í söguþráðinn þannig að það er kannski ekki mikið um þetta að segja án þess að spoilera um of fyrir þá sem eiga eftir að lesa bókina. Fylgsnið er hins vegar meira í átt að minni trú og ég ætla að taka hana fyrir næst. Þar skortir ekki trúarlegar hugmyndir sem ég finn mig mjög í.
5.5.2008 | 15:41
Vorið góða grænt og hlýtt
Ég er byrjuð að lesa Dean Koontz og klæjar í fingurna að blogga um hann en ætla ekki að gera það fyrr en ég er búin með þær tvær sem ég held mest upp á. Er núna að lesa Drekatár og ætla næst í Fylgsnið. Er búin að hlakka til að blogga um þetta efni en hef setið á mér þangað til að ég væri búin að lesa þær.
Það er sannarlega sumar í lofti. Það er yndislegt að heyra í fuglunum og núna er byrjað að grænka og þessi himneski gróðurangan kominn í loftið, enda búið að rigna og er sól núna. Er að hugsa um að fara út með kaffið og borða þar. Það er gaman að geta borðað úti aftur. Er vorið ekki yndislegt
24.4.2008 | 13:06