Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
8.4.2008 | 12:30
Allt á sínum stað
Ég fékk mikla trúarkend við að horfa á þáttinn um jörðina í gærkvöldi. Og ég hugsaði með mér aftur og aftur hvernig þetta stórkostlega samræmi í öllu varðandi jörðina okkar gæti verið tilviljun. Það er allt á sínum stað hjá okkur og allt miðað við að vernda líf á jörðinni. Jörðin er í hárréttri fjarlægð frá sólinni til að hitinn sé jafn. Tunglið er á réttum stað til að stilla af árstíðir og sjávarföll. Lofthjúpurinn ver jörðina fyrir sendingum utan úr geim. Júpíter tekur við stærri sendingum sem myndu annars lenda á jörðinni mun oftar. Risaeðlurnar dóu sennilega út til að spendýrin og maðurinn ættu möguleika. Og ég er örugglega að gleyma einhverju fleira sem kom fram í þessum þætti.
Tilviljuninni er eignað þetta allt saman. Tilviljunin er til upp að vissu marki en hún er ekki fær um neitt svona stórkostlegt eða markvisst. Hún er nefnilega ekki sterkt eða skapandi afl ein og sér. Það er Guð hins vegar, það get ég fullyrt eftir að hafa fundið afl hans á sjálfri mér. Þó er það ekki nema vasaútgáfa af þeim ósköpum sem gengu á þegar hann var að búa til allt þetta flókna kerfi sem heldur lífi á jörðinni gangandi. Ég er viss um að vísindamenn hafa rétt fyrir sér í einhverjum tilfellum hvernig þetta gerðist. En þeir ganga blindandi þegar kemur að afhverju.
Það er einhverja hluta vegna ekki vel séð að segja þetta skapað, og það þó að allt þetta sé svona fullkomið. Nei vísindin hafa ekki sannað tilvist Guðs og þá er hann auðvitað ekki til. Guð verður aldrei vísindalega sannaður vegna þess að hann vinnur persónulega og hver og einn verður að upplifa hann til að meðtaka hann. Það er ekkert flókið í rauninni. Vísindin eru að mörgu leiti gagnleg og þetta er stór gjöf frá Guði að mannkyn geti rannsakað allt og sjálfan sig meðtalið. En það er ekki vel séð af Guði að þau séu tekin í guðatölu sem trúarbrögð. Ég tel nú bara eðlilegt að Guð vilji láta eigna sér heiðurinn af þessu öllu þar sem hann skapaði þetta allt.
3.4.2008 | 18:38
Þegar tveir deila..
Það er ýmislegt sem ég hef ekki tjáð mig neitt um því að mér er ekki vel við að vera að tjá mig um eitthvað sem ég hef litla eða enga þekkingu á. Eitt af því er ástandið í Ísrael og Palestínu. Það stoppar mig samt ekki í að hafa skoðun á því og viðra hana og núna liggur mér smá á hjarta varðandi það.
Ég sá á textavarpinu í fyrradag frétt sem stuðaði mig dálítið og fékk mig til að hugsa. Mikið af þessari umræðu er ýmist svört eða hvít og það mætti stundum halda að ekkert væri á milli. Samkvæmt WHO eða alþjóðar heilbrigðisstofnunarinnar deyja margir sjúklingar í Palestínu sem ekki er hleypt í gegn til Ísraels. Já, þetta er talsvert sjokkerandi þegar þetta er sagt svona.
Og já, þetta er virkilega ömurlegt ástand. En þegar dýpra er kafað þá er þetta kannski ekki svo óeðlilegt þegar skoðað er hversu öfgafullt ástand ríkir þarna. Ég hugsa að margir kætist og telji þetta nú sýna hvað ísraelar séu vondir og forhertir. En það er bara ekki alveg svo einfalt. Það þarf nefnilega að taka með í dæmið við hverja við er að etja. Það eru nefnilega öfgaíslamistarnir sem hafa ábyggilega notað þessa leið til að komast inn í Ísrael til að geta sprengt sig og aðra Allah til dýrðar.
Ég efast um að þetta sé ánægjulegt fyrir ísraela að neita sjúklingum að koma í gegn. En þeir þurfa líka að hugsa um öryggi eigin borgara, það er líka hræðilegur möguleiki að sjúkrahús séu sprengd. Ef hægt er að tala um ísraela sem vondu kallana í þessu, þá ekki síður þessa kaldrifjuðu íslamista sem reyna eins og þeir geta að drepa eins mikið af saklausum borgurum og þeir geta. Og blóð þessara sjúklinga sem deyja af því að þeir komast ekki yfir landamærin lita hendur þeirra líka. Þeir tapa ábyggilega ekki svefni yfir því og gleðjast yfir því að ísraelum er kennt einhliða um.
Þetta er virkilegt eldfimt allt saman. Þetta er líka sorgleg sóun á mannslífum og við svona aðstæður getur mannsandinn lotið reglulega lágt, báðir aðlilar. Og það er alveg deginum ljósara að báðir aðilar hafa framið voðaverk í nafni málstaðarins. En það er líka alveg á hreinu að Ísrael þarf stöðugt að verja hendur sínar og hefur fullan rétt á því, þar eru líka mannslíf í húfi. Hver er umkominn að dæma um hvor aðilinn á meiri tilverurétt?
23.3.2008 | 12:59
Páskar
13.3.2008 | 19:52
Kraftaverk í Iowa
Þetta er frásögn úr þætti um flugslys sem heitir Svarti kassinn og ég á á spólu. Þetta finnst mér vera áhrifamikill atburður og ætla að segja lauslega frá þessu furðulega flugslysi. Þetta er ekki 100% nákvæmt en allar staðreyndir réttar.
Þann 19 júlí 1989 fór á loft frá Denver DC-10 þota frá United Airlines á leið til Chicago og Filadelfia. Um borð voru 285 farþegar. Á fyrsta farrými var yfirflugstjórinn Denny Fitch. Flugstjóri í ferðinni var Al Haynes og yfirflugfreyja var Jan Brown. 40 mínútum eftir flugtak í 37.000 feta hæð varð óvænt sprenging í stélhreyfli (DC-10 er þriggja hreyfla). Flugmenn æfa hreyfilbilanir einna best af öllu í flughermi og því brugðust þeir skjótt við með að drepa á hreyflinum. Denny Fitch fór fram í flugstjórnarklefann til að kanna stöðuna og það kom fljótlega í ljós að ástandið var mun verra en virtist í byrjun. Það var hvorki hæðar né hliðarstýring, og vökvakerfið tómt. Fitch fór fram og leit á vængina og sá að hliðarstýrin vísuðu í sömu átt en eiga að snúa í gagnstæða. Vélin var því stjórnlaus. Eina leiðin til að stjórna vélinni var að draga úr afli á öðrum hreyflinum og auka á hinn, þannig beygði vélin. Denny Fitch bauðst til að taka að sér stjórn á eldsneytisgjöfunum og stjórnaði þar með vélinni.
Hann náði stjórn á stefnunni og var stefnt á Siaux City Iowa. Flugið var ein barátta við að halda vélinni á lofti. Um tíma var útlit fyrir að hægt væri að lenda á hjólum og koma mannskapnum út, en þegar nær dró flugvellinum kom í ljós að hún kom of hratt inn og örlítið til hliðar við brautina. Vélin skall niður og hjólin brotnuðu, hún rann stjórnlaust og upp kom eldur, að lokum kollvarpaðist hún og fór í nokkra hluta. Þegar fyrstu björgunarmennirnir komu að var fólk að rísa upp á akrinum, þeir áttuðu sig á að þetta voru farþegarnir. Flugfreyjan Jan Brown hafði haldið að þetta væri að verða búið, það logaði í henni, en svo reis hún á fætur og fór að koma fólki út uns það var ógerlegt. Hún brann illa á fótum þegar sokkabuxurnar brenndust inn. Hún hugsaði með sér að hún gæti allt eins þakkað farþegum fyrir ferðina. Einn farþeginn fann töskuna sína og tók hana upp.
184 af 285 lifðu slysið af. Flugstjórnarklefinn var lengst frá brakinu og flugmennirnir 4 innilokaðir. Denny Fitch var í lífshættu um nóttina. Þegar hann hitti konuna sína um morguninn spurði hann fyrst hvort hann hefði náð flugbrautinni, svo spurði hann hvort allir hefðu komist af en fékk að vita að svo var ekki. Um tíma vildi hann að hann hefði dáið ef hinir hefðu lifað, en málið er nú samt að hann bjargði því sem bjargað varð. Það var hans stjórn á vélinni sem kom henni á flugvöllinn og honum að þakka að svo margir gengu nær ómeiddir frá slysinu.
Orsökin reyndist vera galli í hvirfilblaðdisknum í stélhreyflinum. Hann splundraðist og klippti á hæðarstýrið og vökvaleiðslurnar. Hann fannst ekki fyrr en þremur mánuðum seinna á akri, við nánari skoðun fannst þessi galli sem var á stærð við sandkorn og fannst ekki við framleiðsluna né við skoðanir. Niðurstaðan var mannleg mistök.
Ég skrifa um þetta af því að ég er nær viss um að þessi útkoma er Guði að þakka. Al Haynes sagði í þættinum að við þessar aðstæður átti vélin ekki að haldast á lofti, en hún gerði það samt. Og að Denny Fitch var um borð var líka Guði að þakka því að hann flaug vélinni. Þegar reynt var að fljúga með þessum hætti í flughermi seinna tókst aldrei að lenda. Það er einhver hógværð og ljúfmennska við þennan mann, einmitt týpa sem Guð notar gjarnan. Þó að það hafi orðið mannskaði þá hefðu allir farist hefði vélin hrapað til jarðar úr 30.000 feta hæð. Af hverju Guð grípur stundum inn í og stundum ekki er ráðgáta sem maðurinn mun sennilega aldrei fá svar við. En einhverjar ástæður hefur hann. Staðreyndin er sú að Guð hugsar um alla menn og ekki bara sitt fólk, hann gerir kraftaverk um allan heim daglega, sum stór og önnur lítil. Guð er svo kærleiksríkur að hann elskar allt mannkyn jafnt.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2008 | 14:20
Hugrekki í Drottni
Ég var að lesa bloggið hennar Lindu og það gaf mér hugmynd af þessari færslu þegar ég var annars andlaus.
Hún var að tala um hugrekki. Það er eitthvað sem ég á ekkert endilega mjög mikið af alltaf og ef það gerist þá er það Guð sem ýtir mér áfram. Í hans hendur geta allir falið sig óttalaust og hann mun finna réttu lausnina. Eða öllu heldur hann veit alltaf réttu lausnina en stundum þarf hann að fara krókaleiðir að henni af því að okkar frjálsi vilji grípur inn í. Að taka á honum stóra sínum og bíta á jaxlinn sagði ég í kommenti hjá Lindu, stundum getur maður ekkert annað gert. Maður tórir einhvernvegin og stundum hef ég bara liðið í gegnum daginn og verið alveg sama um allt. Tíminn stoppar ekkert og hann einfaldlega dregur mann í gegnum í erfiða daga. Það þarf ekkert annað að gera nema þrauka og svo léttir til aftur á endanum.
Ég veit ekki af hverju ég er að gefa innsýn í þetta sem ég vil kalla þunglyndisraus því að ég er ekkert þunglynd í skilningi þess orðs. En allir upplifa erfiða tíma og ég er engin undantekning frá því. Guð telur ekki sitt hlutverk að gera okkur lífið dans á rósum og vill alls ekki sleppa því tækifæri sem það gefur honum til að reyna okkur. En hann styður við bakið á manni í því og það er miklu meira virði en að eiga áreynslulaust líf án Guðs.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2008 | 21:34
Stjörnurnar og tunglið
Það er svo gaman að horfa upp í stjörnurnar, þær bera vitni mikilfengleika skapara síns. Ég var á ferð í bíl í kvöld og var að horfa á stjörnumerkið Orion sem er eina stjörnumerkið sem ég þekki. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að ég sé að horfa á kort af píramídunum. Ég var eitt sinn heilluð af forn egyptum en það dæmi er svo mettað dultrú og kukli að Guð fjarlægði þann áhuga hægt og rólega. Þetta er samt merkileg menning fyrir það.
Svo var ég að horfa á tunglið. Það var gult á leiðinni en þegar það sást héðan var það orðið hvítt á ný, sennilega hefur það fengið sér bað. Það hefur alltaf átt hug minn allan og þegar ég var lítil spjallaði ég við það og ávarpaði sem Tunglsa frænda Ég hafði ofvirkt ýmindunarafl sko Tunglið ber líka vitni um mikilfenglega skapara alls. Samt á þetta allt eftir að líða undir lok, það er erfitt að ýminda sér það en sá sem getur komið þessu öllu saman getur líka eyðilagt það. Ég hyggst samt njóta þess meðan það er.
7.2.2008 | 18:59
Arg!
7.2.2008 | 12:47
Frumkirkjan miðað við nútímann
Frumkirkjan var merkileg að öllu leiti. Það var samfélag fólks sem tók sig upp og gaf allt sitt til hennar og deildu með sér. Sumir af því að þeir vildu tilheyra Jesú og aðrir vegna þess að þeir fengu þar skjól og vernd fyrir ofsóknum vegna trúar sinnar. Ég sé ekki fyrir mér að nútímafólk gæti fært þær fórnir sem þeir sem gengu í frumkirkjuna færðu.
Í dag eru kirkjur byggingar, það er ekki kirkja nema það sé líka einhver bygging. Þær láta mismikið yfir sér en virðast samt vera nauðsynlegar. Kirkjan er auðvitað fólkið sem sækir kirkjuna og það gæti allt eins hist í tjaldi og spilað á kassagítar undir, það væri jafn mikil kirkja fyrir það svo fremi sem allir væru samhuga í Kristi.
Á þeim dögum var líka auðveldara að forðast það fyrirbæri sem kallast í Biblíunni heimurinn. Það er hins vegar erfitt í dag þar sem hann er allt í kringum okkur og við ölumst upp við sjónvarp og útvarp og er kenndur hann í skólum. Eina leiðin er að flytja upp á heiðar í kofa eða eitthvað slíkt. Mannkyn hefur aldrei verið bundnara eða ófrjálsara, allavega hér á vesturlöndum.
Það var að klárast svo fróðleg heimildarþáttaröð á Rúv um frumbyggja sem heimsóttu Bretland og höfðu margt um nútímann okkar að segja og ekki allt jákvætt. Þeir eru ekki svo frumstæðir þannig lagað en lifa samt á náttúrunni og því sem hún gefur og lifa mjög einföldu lífi.
Öll þessi nútímatækni léttir okkur vissulega lífið, en er samt sem áður bundin við rafmagn. Æ meira glatast af þeirri kunnáttu að geta bjargað sér án þess. Vesturlandabúar hafa aldrei verið ofurseldari náttúruöflunum. Það er kannski tímana tákn um það sem koma skal.
2.2.2008 | 21:29
Algjörlega innihaldslaust blogg
Best að henda inn einni bloggfærslu um ekki neitt eða næstum því. Ég hef engar góðar samlíkingar eða neitt þannig núna. Jú það má skrifa um bollur sem ég hef hámað í mig með mikilli ánægju en kannski ekki mörg orð Spaugstofan var meinfyndin eins og sú fyrir viku og ég var nógu mikil skepna til að hlæja að. Ekkert persónulegt gagnvart Ólafi F. Maðurinn þarf að sætta sig við að vera í þannig starfi að það er gert grín að honum. Það eru engar merkilegar bókmenntir sem ég er að lesa. Bara rauða serían sem er ágæt svona í smáum skömmtum og hæfilega heiladeyfandi milli þess sem er merkilegra. Ætla ekki að eyða of mörgum orðum í það heldur Horfði í gærkvöldi á Demolition Man með Sylvester Stallone ( italian stalion ) og var ekkert brjálæðislega hrifin. Leiðist Stallone og finnst margir flottari en hann. Veit eiginlega ekki hvers vegna ég var að sóa tíma mínum í þetta, merkilegt hvað maður leiðist út í úr einskærum leiðindum Einskær leiðindi fá mig líka til að bulla þetta núna, það er ágætt að hvíla sig á þessum trúarlegu. Bloggið mitt væri algjörlega ólesanlegt meira að segja fyrir mig ef þetta væri allt svona bull Til að gera það algjörlega ólæsilegt myndi ég skrifa nákvæmar ritgerðir um rauðu seríuna, langar. Það yrðu í mesta lagi tvö blogg því að þær eru allar eins
Það eru víst takmörk fyrir hvað hægt er að bulla í einu bloggi og ég er komin fram yfir þau. Þannig að það er víst best að hætta þessu rugli.
17.1.2008 | 13:20
Kröfur fólks til Guðs
Ég velti mikið fyrir mér sambandi manna og Guðs, og hvaða væntingar og kröfur fólk gerir til Guðs. Mér finnst gaman að finna samlíkingar um allsskonar hluti og var að finna eina sem ég ætla að reyna á ykkur.
Maður sækir um hjá fyrirtæki. Hann ætlar ekkert að vinna og ætlar ekki að fylgja neinum reglum fyrirtækisins en vill samt hæstu laun og fjárhagslegan stuðning að auki. Forstjórinn ræður hann með bros á vör af því að hann er svo góður við alla og kann ekki að segja nei.
Þetta er svolítið enduspeglun á afstöðu Þjóðkirkjunar til Guðs, og einnig hvernig fólk vill nálgast Guð. Það vill Guð sem æðri kraft sem getur komið til hjálpar en vill ekkert leggja til í staðinn. Hið raunverulega samband manns og Guðs er hins vegar byggt á gagnkvæmu sambandi. Guð vill gefa okkur allt sem hann á og vill aðeins eitt í staðinn, en margir telja of mikið til að gefa, sem er við sjálf og er það eina sem við getum gefið Guði.
Þetta er ekki mín uppfinning þessi samlíking því að Jesús kemur með dæmisögur um þjón og húsbónda. Og það er mjög einfaldur boðskapur að baki, trúi þjónninn fær sín laun en sá ótrúi ekki. Launin eru fjársjóður á himnum og sá fjársjóður eiðist ekki né gengisfellur.